Hoppa yfir valmynd
22. desember 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir skipuð skrifstofustjóri á skrifstofu félags- og lífeyrismála

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir - mynd

Jóna Guðný Eyjólfsdóttir hefur verið skipuð skrifstofustjóri á skrifstofu félags- og lífeyrismála í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Hún er skipuð af Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra.

Jóna Guðný er menntaður félagsráðgjafi og sérfræðingur í foreldrafærniþjálfun. Hún hefur áralanga reynslu af velferðarmálum, meðal annars sem félagsráðgjafi, umsjónarmaður með málefnum fatlaðs fólks, verkefnastjóri á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og síðar deildarstjóri húsnæðis- og búsetudeildar á sama sviði. Í störfum sínum fyrir Reykjavíkurborg hafði Jóna Guðný meðal annars umsjón með fjárhagsaðstoð borgarinnar og stýrði margvíslegum þróunarverkefnum, svo sem undirbúningi og innleiðingu Atvinnutorgs sem fékk sérstök hvatningarverðlaun velferðarráðs Reykjavíkurborgar og innleiðingu á hugmyndafræði um húsnæði fyrst (e. housing first).

Árið 2018 hóf Jóna Guðný störf í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu sem sérfræðingur og teymisstjóri félagsþjónustu. Síðan þá hefur hún setið í fjölmörgum stýrihópum og nefndum og var meðal annars stjórnarformaður Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar á formennskuári Íslands 2019. Árið 2022 var hún settur skrifstofustjóri á skrifstofu barna- og fjölskyldumála, nú skrifstofu félags- og lífeyrismála. Að auki hefur Jóna Guðný komið að margvíslegum rannsóknum í gegnum tíðina.

Embætti skrifstofustjóra á skrifstofu félags- og lífeyrismála var auglýst laust til umsóknar fyrr á árinu og bárust alls 15 umsóknir. Ráðgefandi hæfnisnefnd sem skipuð var samkvæmt 19. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, nr. 115/2011, lagði mat á hæfni umsækjenda. Að loknu heildarmati á gögnum málsins, viðtölum við fimm umsækjendur og á grundvelli umsagna var það mat mennta- og barnamálaráðherra að Jóna Guðný Eyjólfsdóttir væri hæfust til að gegna embætti skrifstofustjóra.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, ákvað síðastliðið sumar að víkja sæti við meðferð og töku ákvörðunar vegna skipunarinnar og gerði það á grundvelli vanhæfis. Mennta- og barnamálaráðherra tók þá við meðferð málsins að undangenginni tillögu forsætisráðherra þess efnis.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum