Hoppa yfir valmynd
16. maí 2024 Matvælaráðuneytið

Matvælaráðherra afhenti viðurkenningar fyrir nýsköpun innan bláa hagkerfisins

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra - myndDL

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra afhenti viðurkenningar Sjávarklasans til fjögurra einstaklinga sem hafa eflt nýsköpun innan bláa hagkerfisins og stuðlað að aukinni samvinnu.

Viðurkenningarnar voru afhentar á opnu húsi Sjávarklasans sem var haldið 16. maí sl. Við sama tækifæri kynnti ráðherra sér fjölbreytta starfsemi nýsköpunarfyrirtækja sem starfa í samvinnu við og innan klasans.

F.v., Karl Birgir Björnsson frá Hefring Marine, Pétur xxxx sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd dóttur sinnar, Erlu Óskar Pétursdóttur frá Marine Collagen, Valdís Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri hjá Breið nýsköpunarsetri og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra.
Karl Birgir Björnsson frá Hefring Marine, Pétur Hafsteinn Pálsson sem tók við viðurkenningunni fyrir hönd dóttur sinnar, Erlu Óskar Pétursdóttur frá Marine Collagen, Valdís Fjölnisdóttir framkvæmdastjóri hjá Breið nýsköpunarsetri og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra.

Viðurkenningu hlutu þau:

  • Birna Einarsdóttir, fyrir ötulan stuðning við klasann og nýsköpun í bláa hagkerfinu. Birna var í forystu fyrir Íslandsbanka sem var með fyrstu samstarfsaðilum Sjávarklasans frá stofnárinu 2011. Birna var allt frá fyrsta degi áhugasöm um að efla nýsköpun í sjávarútvegi og samstarf á milli nýrra greina og þeirra sem fyrir voru.

  • Erla Ósk Pétursdóttir, fyrir ötult frumkvöðlastarf í tengslum við fullnýtingu sjávarafurða. Erla hefur verið í forystu fyrir framleiðslu fiskikollagens á Íslandi og stýrir nú Marine Collagen. Erla hefur frá upphafi verið reiðubúin til að hitta og leiðbeina öðrum frumkvöðlum í fullnýtingu og og nýsköpun og verið óþreytandi að miðla sögu nýsköpunar til innlendra- og erlendra gesta.

  • Karl Björnsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Hefring Marine fyrir árangur með nýsköpunarfyrirtæki. Karl hefur ávallt verið reiðubúinn að fræða jafnt erlenda sem innlenda gesti klasans um íslenska nýsköpun.

  • Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri hjá Breið nýsköpunarsetri fyrir ötult frumkvöðlastarf í nýsköpun. Breið hefur náð góðum árangri í að byggja upp stemmingu á Akranesi fyrir nýsköpun og samstarfi, m.a. í tengslum við bláa hagkerfið. Vinnslurými Breiðar þar sem fyrirtæki hafa getað gert tilraunir, hafa verið mjög mikilvæg viðbót fyrir sprotafyrirtæki.

 

 

„Íslenskur sjávarútvegur er eitt af fjöreggjum þjóðarinnar“ sagði matvælaráðherra. „Með því að búa til farveg og frjótt umhverfi fyrir nýsköpun hefur Sjávarklasinn hjálpað vaxtarsprotum innan greinarinnar að vaxa og dafna. Það dylst engum sem kynnir sér gróskumikla starfsemi klasans að þar er unnið að sjálfbærri verðmætasköpun til framtíðar“.

Matvælaráðherra ásamt sendiherra Japans á Íslandi, Ryotaro Suzuki.

Matvælaráðherra ásamt sendiherra Japans á Íslandi, Ryotaro Suzuki.

Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Carrin F. Patman ásamt matvælaráðherra.

Sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Carrin F. Patman ásamt matvælaráðherra.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum